fÓLK SEM ÉG MÆLI MEÐ
Ég er yfirleitt bókuð nokkuð langt fram í tímann svo hér eru fólk, sýningar og þjónustur sem ég mæli með. Allt þetta er fólk sem ég myndi bóka í mitt eigið partý.
Bobbie Michelle
Bobbie Michelle er frábær burlesk-skemmtikraftur, og kann einnig að húlla og kenna fólk hvoru tveggja. Hún tekur að sér að koma fram í alls konar partýum og er líka frábær kennari fyrir gæsa- og steggjapartý. Hún kemur einnig fram í barnapartýum undir nafninu Húllumhæ Húllastelpan.
Veislustjórn, skemmtiatriði, barnaafmæli, gæsapartý
Bibi Bioux
Fjölbreytt og fyndin kabarettsöngkona sem á lög um laxveiði, breytingaskeiðið, köngulær á stefnumótaforritum og einmana jólatré. Hún er besta Kate Bush-eftirherma landsins og þó víða væri leitað. Bibi er einnig rúnaspákona, og frábær í saumaklúbbinn eða gæsapartýið.
Skemmtiatriði, veislustjórn, kabarett, spákona
Jellyboy the Clown
Besti sverðgleypir og side-show listamaður New Yorkborgar er með annan fótinn á Íslandi, en hann er giftur íslenskri konu. Ef þú ert með carnival-, sirkus- eða tívolíþema þá er Jellyboy frábær skemmtikraftur. Atriðin hans eru ekki fyrir viðkvæma, en hann hefur slegið í gegn jafn á árshátíðum og í tólf ára afmælum!
Skemmtiatriði, sirkus, eldri barnaafmæli, skammdegi, eldur, sverð
Árni Helgason
Árni Helgason er ferskur uppistandari. Mjög fyndinn og sniðugur. Hér er óborganlegt boomerang frá því við unnum saman í brúðkaupsveislu fyrir stuttu, þar sem hann var að bíða eftir að komast á svið og lenti í miðju myndakassasessjóni hjá börnunum í veislunni.
Uppistand, veislustjóri
Gógó Starr
Dragundrið Gógó Starr er algjör alhliðaskemmtikraftur. Frábær veislustjóri, á æðisleg skemmtiatriði og getur dragmálað gæs eða stegg. Gógó er líka plötusnúður og fyrirlesari, og hefur einnig tekið að ser að taka á móti fólki á árshátíðum í fordrykk eða hjálpa þeim að pósa í myndakössum. Bókaðu Gógó áður en Gógó slær í gegn í RuPaul's Drag Race!
Veislustjórn, skemmtiatriði, drag, pubquiz, DJ, gæsapartý.
Dan the Man
Dan the Man er frábær skemmtikraftur. Hann getur kennt súludans í gæsa- og steggjapartýum, á brjálæðislega sexí blöðrudýraatriði, víkingasúludansatriði og einhjólastrippatriði! Einu sinni var hann bókaður í gæsun en súlan passaði ekki í stofuna, þá stillti hann henni upp úti og notaði bílljós sem kastara. Útsjónarsamur og skemmtilegur, já og sætur.
Skemmtiatriði, gæsapartý, kennsla, steggjapartý, fullorðins
Dömur og herra
Burlesque er kynþokkafullur kabarettdans sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga síðastliðin ár. Sífellt vinsælla er að fá burlesk- eða kabarettsýningu í partý og Dömur og herra hafa allt til að bera til að koma með glæsilegt sjóv í þitt partý. Best er að hafa samband við þau í gegnum Facebook.
Veislustjórn, skemmtiatriði, fullorðins
Lalli töframaður
Lalli er einhvers konar skemmti-náttúruafl. Fyndnasti töframaður heims hvort sem um er að ræða fyrir börn eða fullorðna. Allt frá barnaafmælum til bingós, gæsana til árshátíða, Lárus getur allt. Frábært veislustjóri, skemmtikraftur, DJ, bingómeistari og pubquizstjóri.
Veislustjórn, skemmtiatriði, DJ, bingó, pubquiz, töfrar, barnaafmæli
Kramhúsið
Kramhúsið á fjöldan allan af kennurum sem geta sett sig inn í hvaða dansstíl sem er hvort sem um er að ræða hópefli, gæsun, steggjun, afmæli eða partý. Bæði er hægt að panta kennara til að koma til ykkar eða að koma í Kramhúsið sem er hentuglega staðsett í Miðborginni og oft kallað G-blettur Miðbæjarins!
Ég mæli með þessum kennurum:
Nadia: Beyoncé, magadans, Hips Don't Lie, burlesk, Bollywood
Sólveig: Beyoncé og annað skvísó
Róberta: Burlesk, húlla
Sigga Ásgeirs: Beyoncé, sensual fusion, gelludansar ýmiskonar
Berglind: Spice Girls, Britney
Svanhvít: Burlesk
Dans, hópefli, gæsapartý, steggjapartý, vinahittingur
Maísól
Ragnheiður Maísól er óborganlega fyndin og á fjölda atriða sem virkja veislugesti. Einnig á hún það til að taka með sér Hjössu, hina sjarmerandi kraftakonu. Maísól er liðtækur plötusnúður og menntaður trúður og getur haldið utan um æðisleg vinnustaðahópefli.
Veislustjórn, skemmtiatriði, DJ, hópefli